Tatarar - Dimmar rósir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Dimmar rósir
Forsíða breiðskífu
Bakhlið breiðskífu
Tatarar – SG - 541
Gefin út 1969
Tekin upp {{{Tekin upp}}}
Tónlistarstefna Dægurlög
Lengd
Útgáfufyrirtæki SG - hljómplötur
Upptökustjóri Pétur Steingrímsson
Tatarar – Tímatal

Tatarar er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1969. Á henni flytja Tatarar tvö lög. Hljóðritun plötunnar gerði Ríkisútvarpið og sá Pétur Steingrímsson um upptöku. Ljósmyndir á framhlið og í miðopnu tók Óli Páll Kristjánsson. Aðrar ljósmyndir tók Ólafur H. Torfason.

[breyta] Lagalisti

  1. Dimmar rósir - Lag - texti: Árni Blandon - Magnús Magnússon - Hljóð Hljóðdæmi.
  2. Sandkastalar - Lag - texti: Erlent - M

[breyta] Textabrot af bakhlið plötuumslags og innblöðum

   
Tatarar - Dimmar rósir
Tatarar, hljómsveitin sem tekið verður eftir. Fleiri íslenzkar hljómsveitir hafa sent frá sér sína fyrstu hljómplötu á þessu ári en á síðustu 3—4 árum til samans. Það er jafnvel orðið þannig, að ný plata með nýrri hljómsveit er hætt að vekja athygli. Það er hinsvegar álit SG-hljómplatna, að Tatarar sé hljómsveitin, sem tekið verður eftir. Tatarar léku opinberlega á örfáum dansleikjum árið 1968 og hafa ekki komið fram opinberlega nema 5—6 sinnum það sem af er þessu ári. Engu að síður hafa þeir æft af miklu kappi og þá sérstaklega í sumar. Þessi tvö lög þeirra á þessari hljómplötu eru árangur þeirra æfinga. Hér kemur því sem næst óþekkt hljómsveit á hljómplötu og gerir ekki aðeins betur en allar aðrar hljómsveitir á sinni byrjendaplötu, heldur hlýtur þessi hljómplata að teljast með því merkasta, sem gert hefur verið á íslenzkri hljómplötu um langt skeið. Lagið Sandkastalar er erlent en með íslenzkum texta eftir íslenzkt Ijóðskáld, sem kallar sig einfaldlega „m" á plötunni. Hitt lagið, „Dimmar rósir", sem er eftir gítarleikara Tatara, Árna Blandon, er margslungið og koma fram á því æ fleiri skemmtilegar hliðar eftir því sem það heyrist oftar. Textinn er eftir trommuleikara Tatara, Magnús Magnússon.

Það leika ekki aðrir á þessari hljómplötu en Tatarar, engir aukamenn, engar fiðlur eða lúðrar. Því Tatarar standa fyrir sínu. Tatarar eru hiklaust hljómsveitin sem koma skal. Tatarar eru hljómsveitin, sem tekið verður eftir.

Stefán Eggertsson á kannski miklu frekar heima í landsliðinu í körfuknattleik en pophljómsveit, því hann er „stór eftir aldri", eins og ömmurnar sögðu í gamla daga. Stefán er átján ára, fæddur 18. júní 1951. Hann er söngvari með Töturum, leikur enn ekki á neitt hljóðfæri en hefur fullan hug á að læra á eitthvað, þrátt fyrir það, að félagar hans í hljómsveitinni segja að aðalsöngvarinn eigi bara að syngja. En það er nú líklega vegna þess að þeir hafa heyrt og séð Stefán reyna að spila. Eftir barnaskóla og gagnfræðaskólagönguna hafnaði Stefán í Menntaskólanum í Hamrahlíð. Þaðan verður hann stúdent í vor ef allt fer að óskum. Þar byrjaði hann reyndar fyrst að syngja með Bláa bandinu, sem síðan fengu nafnið Dýrlingarnir og loks Tatarar.

Jón Ólafsson er yngstur þeirra Tatara, því hann er ekki nema liðlega sautján ára, fæddur 28. apríl 1952. Jón fæddist í Reykjavík og eftir að hafa setið í tveimur barnaskólum og einum gagnfræðaskóla, þá bætti hann við enn einum skólanum, þ.e.a.s. hinni gagnmerku menntastofnun, Lindargötuskólanum. Þar með lauk þeirri þrautinni. Jón fékk ungur áhuga fyrir tónlist, eignaðist rafmagnsbassa aðeins þrettán ára og lærði á hann sjálfur. Fór upp úr því að spila með hljómsveitum, fyrst með einni, sem hann vill ekki nefna. Síðan kom Sonet, sem varð nokkuð vinsæl og þá Zoo, sem varð allt að því eins vinsæl og þá tók við hljómsveit, sem hafði ekkert leikið í marga mánuði þegar hann fór að spila með henni, nefnilega Tatarar.

Þorsteinn Hauksson fæddist 4. ágúst 1949 og hefur hann hlotið hvað mesta menntun þeirra Tatara á tónlistarsviðinu, því hann hefur verið við píanónám í sjö ár. Byrjaði hjá Carli Billich og fór síðan í Tónlistarskólann, þar sem Rögnvaldur Sigurjónsson er hans aðalkennari. Hefur hug á að ljúka brottfararprófi frá skólanum í píanóleik. Nú, auk þess var Þorsteinn í gítartímum hjá Karli Lilliendahl í einn vetur. Þorsteinn leikur ekki aðeins á píanó og orgel með Töturum heldur líka gítar, og segja sumir hann einn fremsta gítarleikarann í popmúsikinni hér á landi, þó lítt sé hann kunnur. Af skyldunáminu er það að segja. að Þorsteinn fór í barna- og síðan Gagnfræðaskóla Kópavogs. Og lauk hann síðan námi í Verzlunarskóla Íslands. Þorsteinn var í tveimur hljómsveitum áður en hann byrjaði með Töturum. Hét hin fyrri Zero og hin seinni Næturgalar.

"Kannske verð ég rekinn nœst", segir Árni Blandon upphafsmaður Tatara Eigi að draga fram einhvern sérstakan, sem upphafsmann Tatara, þá verður Árni Blandon líklega „að taka á sig skömmina". Við byrjuðum saman tveir kunningjar, sem báðir vorum að læra á gítar. Bættum síðan við bassa og komum fram á skóladansæfingum. Upp úr því bættist við trommuleikari og við skírðum hópinn Tacton, ég man aldrei hvort við fengum nafnið úr erlendri auglýsingu um þvottaduft eða magabelti. Enginn okkar söng, svo við fengum okkur fljótlega söngvara. Við héldum hópinn nokkuð lengi, eða þar til tveir úr hljómsveitinni fóru í Menntaskólann, bassaleikarinn og ég. Þar stofnuðum við hljómsveit, sem við skírðum Bláa bandið, og þar með leið Tacton út af. Vegna nafnsins, Bláa bandið, fengum við lítið að gera og skiptum þá um nafn og kölluðum okkar Dýrlingarnir og nú var Stefán byrjaður með okkur. Síðan breyttist hljómsveitin smám saman. Þorsteinn bættist við og síðan Maggi á trommurnar og nýjasta breytingin var svo þegar Jón kom á bassann. Hafði hljómsveitin reyndar fengið heitið Tatarar nokkrum mánuðum áður. Þessar breytingar voru ætíð til að bæta hljómsveitina. Það var stundum erfitt að láta vini sína víkja fyrir öðrum betri en svona er það. Nú er ég líklega orðinn lakasti músikantinn í Töturum. Kannski verð ég rekinn næst.

Magnús S. Magnússon fæddist í Reykjavík 25. febrúar 1949. Hann hóf barnaskólanám í Melaskóla og þegar ekki var hægt að troða meira lærdómi í hann þar, þá tók Hagaskólinn við. Þaðan fór hann svo í Menntaskólann í Reykjavík og reiknar með að ljúka stúdentsprófi að vori. Einhverntíma á fyrri hluta táningsáranna fór hann í nokkra tíma á píanó, en tímarnir þeir urðu ekki fleiri en það, að hann fékk aldrei að leika á svörtu nóturnar. Eftir það fékk hann áhuga á trommum og fór þá m.a. í trommunám hjá Guðmundi Steingrímssyni. Magnús heldur upp á jazzmúsik og framúrstefnumúsik amerískra pop-jazzhljómsveita. Af innlendum sagði hann Hljóma bezta meðan Pétur Östlund var með þeim, en auðvitað eru Trúbrot góðir bætti hann við.

   
Tatarar - Dimmar rósir
 
— Svavar Gests