Arnarfjörður
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Arnarfjörður er annar stærsti fjörðurinn á Vestfjörðum eftir Ísafjarðardjúpi og er rétt sunnan við miðju kjálkans. Hann er um 30 km langur inn í botn Dynjandisvogs, 5 til 10 km breiður og afmarkast hið ytra af Kópanesi að sunnan og Sléttanesi að norðan. Innan úr honum skerast nokkrir minni firðir og vogar.
[breyta] Landafræði
Norðan við Langanes sem skiptir Arnarfirði eru Dynjandisvogur og Borgarfjörður. Sunnan Langanes eru Suðurfirðirnir: Bíldudalsvogur, Fossfjörður, Reykjafjörður, Trostansfjörður og Geirþjófsfjörður. Ketildalir heita einu nafni röð af stuttum dölum sem ná eftir allri strandlengjunni á suðurströnd Arnarfjarðar, frá Kópsnesi inn að Bíldudalsvogi. Norðan Arnarfjarðar liggur meðal annars Hrafnseyri, kirkjustaður og fyrrum prestssetur. Þar fæddist, 17. júní 1811, Jón Sigurðsson, einn helsti leiðtogi í frelsisbaráttu íslendinga á 19. öld.
Í botni Borgarfjarðar er Mjólkárvirkjun, sem nýtir vatnsföll ofan af Glámuhálendinu til rafmagnsframleiðslu. Í botni Dynjandisvogs er fossinn Dynjandi sem er mest foss á Vestfjörðum.
Bíldudalur er eina kauptúnið við Arnarfjörð. Það á sér langa og merka sögu, þar var meðal annars einn af verslunarstöðum einokunarverslunarinnar. Fljótlega eftir að verslun var gefin frjáls í lok 18. aldar eignaðist Ólafur Thorlacius verslunina og rak þaðan þilskipaútgerð og flutningaskip og seldi fisk beint til Spánar. Pétur J. Thorsteinsson rak einnig mikinn atvinnurekstur á Bíldudal milli 1880 og 1910 með útgerð og verslun.
Fram undir miðja 20. öld var Arnarfjörður þéttbyggður en nú eru einungis örfáir bæir eftir í byggð. Lítið undirlendi er víðast við fjörðinn og voru flestir bæir í fjarðarbotnum og í fjallshlíðum þar sem eitthvað underlendi var. Sjóróðrar voru stundaðir jafnhliða búskap frá öllum bæjum. Sjósókn var þó erfið á árabátum nema frá þeim bæjum sem voru utarlega í firðinum. Verstöðvar voru því reistar á ystu nesjum þar sem hægt var að lenda árabátum og má víða sjá rústir og aðrar leifar á ystur nesjum.
Í innfjörðum Arnarfjarðar er víða mikil veðursæld þar sem þeir eru umkringdir háum fjöllum og eru þeir víða vaxnir birkikjarri.
Í dag liggja tvö sveitarfélög að Arnarfirði, Ísafjarðarbær að norðan og Vesturbyggð að sunnan en áður voru þrjú sveitarfélög í Arnarfirði: Auðkúluhreppur, Suðurfjarðahreppur og Ketildalahreppur.
[breyta] Landnám
Samkvæmt Landnámu er Arnarfjörður kenndur við landnámsmanninn Örn, en þar segir svo: „Örn var maður ágætur. Hann var frændi Geirmundar heljaskinns. Hann fór af Rogalandi fyrir ofíki Haralds konungs. Hann nam land í Arnarfirði, svo vítt sem hann vildi.“ Samkvæmt Landnámu keypti Án rauðfeldur Grímsson land af Erni milli Langaness og Stapa í Arnarfirði og bjó sjálfur á Eyri. Dufan, leysingi Ánar, bjó í Dufansdal. Einnig er sagt að: „Ketill ilbreiður son Þorbjarnar tálkna, nam dali alla frá Kópanesi til Dufansdals.“ Við hann eru Ketildalir kenndir. Og einnig nam Geirþjófur Valþjófsson Suðurfirði alla og bjó í Geirþjófsfirði.

