Kirkjurokið
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kirkjurokið var fárviðri sem menn í Svarfaðardal nefndu svo, en það gekk yfir landið þann 20. september árið 1900.
En dag þennan gekk yfir landið suðvestan- og vestan illviðri, eitt hið allra versta af þeirri gerð sem sögur fara af. Margháttaður skaði varð bæði á mönnum og munum og má í því sambandi nefna drukknun 17 manna á fjórum bátum sem reru frá Arnarfirði í bítið þennan örlagaríka morgun. Þá fauk hús í heilu lagi á Árskógsströnd með átta manns innan veggja og létust þrír þegar húsið endasteyptist fram af sjávarbakka. Í Svarfaðardal minntust menn þessa óveðurs langt fram eftir öldinni sem kirkjuroksins haustið 1900, enda ekki nema von þar sem kirkjurnar á Völlum og Upsum brotnuðu í spón og sú þriðja, á Urðum, skekktist mjög á grunni sínum.

