Moodle
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Moodle er hugbúnaður til að byggja upp netbundið námsumhverfi. Moodle er í stöðugri þróun og sérstaklega hannað með það í huga að styðja við kennsluhætti sem grundvallast á félagslegri hugsmíðahyggju.
Moodle er opinn hugbúnaður og geta allir sem áhuga hafa nýtt sér hann (samkvæmt skilmálum GNU Public hugbúnaðarleyfisins). Í grundvallaratriðum þýðir það, að Moodle er verndað af höfundarrétti en notendur búa engu að síður við ákveðið frelsi. Heimilt er að taka afrit af Moodle hugbúnaðinum, hagnýta og breyta á hvern þann hátt sem hentar svo lengi sem viðkomandi samþykkir að veita öðrum notendum aðgang að frumkóðanum; breyta ekki eða fjarlægja upprunalega leyfisskilmála eða höfundarrétt og láta sama leyfi ná yfir öll afleidd verk. Frekari upplýsingar má finna í heildartexta hugbúnaðarleyfisins og einnig má hafa samband við handhafa höfundarréttar ef einhverjar spurningar vakna.
Moodle er hægt að setja upp á öllum tölvum sem geta keyrt PHP forritunarmálið og styðja við SQL gagnagrunn (t.d. MySQL). Moodle keyrir á Windows og Macintosh stýrikerfum og mörgum GNU/Linux dreifningum (s.s. Red Hat eða Debian). Fjölmargir Moodle samstarfsaðilar eru reiðubúnir að veita aðstoð og jafnvel hýsa Moodle vefinn þinn.
Orðið Moodle var upprunalega hugsað sem skammstöfun á Modular Object-Oriented Dynamic Learning Environment, sem fyrst og fremst er gagnlegt fyrir forritara og kennslufræðinga. Orðið er einnig sögn sem lýsir því að vinna við eitthvað á eitthvað á afslappaðan hátt, eða ánægjulegu fikti sem stundum leiðir til innsæis og sköpunar. Á þennan hátt vísar orðið Moodle bæði til þess hvernig hugbúnaðarlausnin var þróuð og einnig hvernig nemandi eða kennari gætu hugsanlega nálgast nám og kennslu á Netinu.

