Heggstaðanes

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Heggstaðanes eða Bálkastaðanes kallast nesið milli Hrútafjarðar og Miðfjarðar. Er það framhald af Hrútafjarðarhálsi með áþekku landslagi en láglendara. Þar er mýrlent með melholtum á milli. Hæst er nesið utanvert, milli bæjanna Heggstaða (að austanverðu) og Bálkastaða (að vestanverðu). Kallast landið þar Heggstaðaheiði.

Sauðfjárrækt er mikil á nesinu; er það grösugt og mikil sauðalönd. Þá er þar æðardúntekja - mest á Heggstöðum en einnig á Bálkastöðum og Bessastöðum. Yfir Heggstaðanesháls liggur malarvegur fær öllum fólksbílum en hann var mikið betrumbættur haustið 2006. Var þetta aðalvegurinn á nesinu lengst af þar sem fólk á nesinu hafði lítið að sækja fram í Hrútafjörð. Heggstaðanes tilheyrði Ytri-Torfustaðahreppi fram til ársins 1998 en er síðan hluti af Húnaþingi vestra. Kirkjusókn er að Melstað.