Kaupmannahöfn
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kaupmannahöfn (danska: København) er höfuðborg Danmerkur. Kaupmannahöfn stendur við Eyrarsund á austurströnd Sjálands og er að hluta til á eyjunni Amager. Kaupmannahöfn varð höfuðborg Danmerkur árið 1536.
[breyta] Orðsifjar
Íslenska heitið á Kaupmannahöfn á rætur sínar að rekja til þess tíma þegar borgin nefndist „Købmandshavn“ á dönsku. Nafnið hefur síðan einfaldast á máli Dana og orðið að København. Nafn borgarinnar á lágþýsku „Kopenhagen“ hefur gengið inn í önnur tungumál, svosem ensku (Copenhagen), frönsku (Copenhague) og ítölsku (Copenaghen). Íslendingar nefna oft borgina „Köben“ í daglegu og óformlegu tali, og er stytting á núverandi heiti hennar á dönsku.
[breyta] Saga Kaupmannahafnar
Sveinn tjúguskegg er talinn hafa stofnað borgina um árið 1000, eða hugsanlega sonur hans Knútur hinn ríki (Sveinsson), en fornleifar benda þó til þess að búið hafi verið þar sem borgin stendur nú fyrir um 5000 til 6000 árum. Fyrst er minnst á borgina á árinu 1043, en Kaupmannahöfn fékk nafn sitt „Købmandshavn“ um 1200.
Árið 2003 bjuggu 1.116.979 manns á stórkaupmannahafnarsvæðinu, þar af 502.204 í Kaupmannahöfn sjálfri. Flatarmál hennar er 525,9 km² og þéttleiki byggðar er 953,2/km².

