Stefán Jónsson (1905 - 1966)
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
- Þessi grein fjallar um rithöfundinn Stefán Jónsson. Til er aðgreiningarsíða um aðra sem heita Stefán Jónsson.
Stefán Jónsson var rithöfundur og kennari. Er hans aðallega minnst fyrir rit sín ætluðum börnum og unglingum en samdi þó einnig fjölda verka fyrir fullorðna. Varð hann þjóðþekktur árið 1939 fyrir kvæðið Sagan af Gutta og seinna fyrir Söguna hans Hjalta litla. Nutu þær báðar mikilla vinsælda og kannast flestir við Guttavísurnar þó að ekki þekki allir til höfundar þeirra.
Stefán var fæddur að Háafelli í Hvítársíðu hinn 22. desember árið 1905. Áður en Guttavísur komu út árið 1939 hafði hann þegar gefið frá sér verkið Konan á klettinum, en fyrir þá sögu hlaut hann fyrstu verðlaun í smásagnakeppni Eimreiðarinnar árið 1933. Hlaut hann þau verðlaun svo í annað sinn árið 1940 fyrir smásöguna Kvöld eitt í september. Vinir vorsins, fysta unglingasagan sem Stefán gaf frá sér, kom út árið 1941 og Sagan hans Hjalta litla árið 1948.
Verk Stefáns njóta mikillar sérstöðu innan bókmennta fyrir börn og unglinga þar sem þau höfða einnig til fullorðinna á hátt sem honum einum er laginn. Þó hann hafi skrifað bækur fyrir börn og unglinga notaðist hann ætíð við sitt eðlislæga raunsæi. Sögupersónur hans eru ekki allar hvítpússaðar og ekki fullkomnar né einfaldar frekar en fólk yfirleitt. Fyrir þennan stíl sagna var hann mjög svo gagnrýndur á sínum tíma þar sem barna- og unglingabækur einkenndust að mörgu leiti af einfaldleik og sögupersónurnar af hegðun sem þótti til eftirbreytni og fyrirmyndar. Stefán náði hins vegar að snerta hinar mannlegu hliðar lesenda sinna og þótti það varasamt að barnasögur væru hreinn barnaskapur. Hann leitaðist við að segja börnum sögur sem gerðu þau að þenkjandi manneskjum og að sama skapi höfða til barnsins í fullorðna fólkinu.
Stefán var giftur Önnu Aradóttur. Hann lést af heilablæðingu 12. maí árið 1966.

