Loftvog

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Einföld mynd sem sýnir loftvog, neðst er skál með kvikasilfri
Einföld mynd sem sýnir loftvog, neðst er skál með kvikasilfri

Loftvog eða barómeter er tæki notað við veðurathuganir til að mæla loftþrýsting. Elsta gerð loftvogar er kvikasilfursloftvog, sem er í meginatriðum glerpípa, opin í annan endann, fyllt með kvikasilfri, sem komið er fyrir á hvolfi í skál með kvikasilfri. Breytingar í loftþrýstingi sjást sem hæðarbreytingar á kvikasilfurssúlunni og eru mældar í millimetrum kvikasilfurs, táknaðar með mmHg, en sú eining hefur hlotið nafni torr. Loftþrýstingur, sem heldur kvikasilfurssúlu í 760 mm hæð frá yfirborðinu í skálinni, samsvarar einni loftþyngd.

Mælingar með loftvog eru mjög háðar hæð athugunarstaðar yfir sjávarmáli og hita. Til að samræma veðurathuganir er því loftþrýstingur reiknaður eins og loftvogin stæði við sjávarmál og gefinn þannig í veðurskeytum. Algengasta mælieining loftþrýstings er hektópaskal.

Í dósarloftvog er notast við þenslubreytingar málmdósar til að mæla loftþrýsing, en í rafeindaloftvog er notaður þenslunemi til að mæla loftþrýsting. Loftvog með húslagi, og sem venjulega er með myndum eða mannslíkönum sem koma út í dyrnar til skiptis eftir mismunandi loftþyngd, nefnist veðurhús.