Húsavík (Skjálfanda)
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Húsavík er bær við Skjálfanda í sveitarfélaginu Norðurþingi í Suður-Þingeyjarsýslu. Sjávarútvegur, verslun og ferðaþjónusta eru þar mikilvægustu atvinnuvegir. Framhaldsskóli er í bænum: Framhaldsskólinn á Húsavík.
Á meðal merkilegra mannvirkja á Húsavík er Húsavíkurkirkja sem er frá fyrri hluta 20. aldar. Boðið er upp á hvalaskoðunarferðir frá Húsavík og þar er einnig hvalasafn. Einnig er Mývatn ásamt eldstöðvunum við Kröflu ekki langt frá.
Húsavík er kaupstaður við innanverðan Skjálfanda að austanverðu. Fiskvinnsla og útgerð hefur verið ein af stoðum atvinnulífisins ásamt með verslun og þjónustu við nágrannasveitir. Vinnsla landbúnaðarafurða er og stór þáttur í atvinnulífinu og eru þar framleiddar landsþekktar kjöt- og mjólkurvörur. Elzta kaupfélag landsins var stofnað á Húsavík árið 1882. Hótel og önnur góð gistiaðstaða eru á staðnum og þjónusta við ferðamenn eins og hún gerist best. Hvalaskoðunarferðir frá Húsavík eru löngu þekktar hérlendis sem og víðast annars staðar í heiminum og kemur fjöldi íslenskra og erlendra ferðamanna til Húsavíkur gagngert til að skoða hvali. Árangurinn í þessum ferðum hefur orðið til þess, að bærinn er nú kallaður: „Hvalahöfuðborg heimsins”. Hvalamiðstöðin dregur til sín tugi þúsunda gesta ár hvert.
Stutt er í eina af þekktustu laxveiðiá landsins, Laxá í Aðaldal, en einnig býðst veiði í vötnum og öðrum ám í nágrenninu. Fjölmargir áhugaverðir staðir eru í nágrenni Húsavíkur og má t.d. nefna Tjörnes, hvar finna má skeljar í berglögum vel fyrir ofan sjávarmál. Skammt er til Mývatns, Kelduhverfis, Jökulsárgljúfra og annnarra áhugaverðra staða frá Husavík.

