Spatt
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Spatt (einnig nefnd hækilskemmd) er sjúkdómur í hestum sem einkennist af langvarandi bólgu, brjóskeyðingu og síðar kölkun í hækillið; stafar m.a. af mari á liðbrjóski, t.d. vegna ofreynslu eða af höggi á liðinn. Skiptar skoðanir eru þó um spattið. Talað er um að hestar séu spatthaltir (jafnvel spattaðir), eða að spatthelti þjái hest. Spatthnútur er beinhnútur sem myndast á hæklinum við spatt.
Efnisyfirlit |
[breyta] Uppruni og einkenni
Spatt byrjar með bólgu í smáliðunum þremur fyrir neðan hækillið. Þessi smáliðir hreyfast lítið því mesta hreyfingin verður milli völubeins og langleggs þegar hesturinn spyrnir sér áfram. Brjóskið ést smám saman upp og beinmyndun eykst - liðirnir kalka saman. Deildar meiningar er um uppruna spatts. Sumir segja að spatt myndist vegna ofreynslu á unga aldri, einnig að það geti myndast vegna meiðsla (t.d. ef hestur misstígur sig) og margir halda því fram að þetta sé arfgengt, eða að minnsta kosti að sumir hestar séu veikari fyrir spatti en aðrir. Þannig eru kýr- og krappfættir hestar í áhættuhópi vegna spatts.
Sumir hestar heltast við spatt, aðrir ekki, jafnvel þótt sannað þyki að spatt sé fyrir hendi og hafi komið fram á röntgenmyndum. Með tímanum kalkast liðirnir saman og hesturinn hættir að finna til og hægt er að nota hann til reiðar eftir það. Hægt er að framkalla svokallað beygjupróf til að finna út hvort hestur sé spattaður eða ei. Liðurinn er þá krepptur í 1 til 2 mínútur og hesturinn næst látinn hlaupa. Helti í spöttuðum hestum er mest þegar hann leggur af stað en lagast svo þegar líður á þjálfunina - hesturinn liðkast til. Sé spattið á háu stigi, þ.e. að liðirnir séu mikið skemmdir og brjóskið mikið eytt, þá versnar heltið með brúkun.
[breyta] Spatt á Íslandi
Spatt er mjög algengur sjúkdómur í íslenskum hestum. Merki um spatt hefur fundist í beinum hesta í kumlum frá landnámsöld. Tekist hefur að rækta spatt úr mörgum hestakynjum, en íslenskir hestaræktendur eiga langt í land.[heimild vantar] Á Ísland er ekki gefið upp hvaða stóðhestar hafa komið illa út úr spattrannsóknum, sem er mjög umdeilt. Allir 5 vetra stóðhestar sem koma til kynbótadóms skulu hafa verið röntgenmyndaðir til að sjá hvort skuggi (spatt á frumstigi) hafi myndast í hækilliðum.[1]
[breyta] Neðanmálsgrein
- ↑ Hrossarækt - Kynbótasýningar. Skoðað 29. apríl, 2007.
[breyta] Heimild
- Helgi Sigurðsson. Hestaheilsa. Eiðfaxi, 1989.

