Platon

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Vestræn heimspeki
Fornaldarheimspeki
Platon
Nafn: Platon
Fædd/ur: 427 f.Kr.
Dáin/n: 347 f.Kr.
Skóli/hefð: Platonismi
Helstu ritverk: Málsvörn Sókratesar; Evþýfrón; Prótagóras; Gorgías; Menon; Fædon; Ríkið; Fædros; Samdrykkjan; Kratýlos; Parmenídes; Þeætetos; Fræðarinn; Stjórnspekingurinn; Tímajos; Fílebos; Lögin
Helstu viðfangsefni: frumspeki, þekkingarfræði, siðfræði, stjórnspeki, réttlæti, menntun, bókmenntir
Markverðar hugmyndir: hluthyggja, frummyndakenningin, tvíhyggja um líkama og sál, ódauðleiki sálarinnar, upprifjunarkenningin, þekking sem sönn rökstudd skoðun, refsing sem lækning sálarinnar, þrískipting sálarinnar, eining dygðanna, platonsk ást, heimspekikóngurinn
Áhrifavaldar: Sókrates, Parmenídes, Herakleitos, Kratýlos, Pýþagóras, Fílólás, Empedókles, Anaxagóras, Megöruheimspekin, sófistar, Prótagóras, Pródíkos, Hippías, Gorgías, Hómer, Hesíódos, Aristófanes
Hafði áhrif á: Spevsippos, Xenókrates, Evdoxos, Aristóteles, akademíska efahyggju, Arkesilás, Karneades, stóuspeki, Panætíos, Póseidóníos, Cicero, Plútarkos, Plótínos, Porfyríos, Jamblikkos, Próklos, Anselm, Ficino, Hobbes, Descartes, Leibniz, Schopenhauer, Nietzsche, Heidegger, Gadamer, kristni, nær alla vestræna heimspeki og vísindi

Platon (forngríska: Πλάτων (umritað Plátōn)) (um 427 f.Kr.347 f.Kr.) var forngrískur heimspekingur og einn áhrifamesti hugsuður sögunnar.[1] Hann var nemandi Sókratesar og kennari Aristótelesar, rithöfundur og stofnandi Akademíunnar í Aþenu. Í löndum þar sem töluð er arabíska, tyrkneska, írönsk mál, eða úrdu mál er hann nefndur Eflatun, sem þýðir uppspretta vatns og, í yfirfærðri merkingu, þekkingar.

Efnisyfirlit

[breyta] Æviágrip

Platon var sonur aþensku hjónanna Aristons og Periktíone (eða Potone).[2] Fornar heimildir herma að raunverulegt nafn Platons hafi verið Aristókles en hann hafi fengið gælunafnið Platon í glímuskóla Aristons glímukappa frá Argos af því að hann var svo þrekvaxinn.[3] Fræðimenn greinir á um hvort sagan sé sönn.[4]

Fæðingardagur Platons er ekki þekktur með vissu. Talið er að hann hafi fæðst í Aþenu eða á eynni Ægínu[5] annaðhvort 428 f.Kr. eða 427 f.Kr.[6] Díogenes Laertíos rekur ættir föður hans aftur til Kodrosar, konungs í Aþenu, og Melanþosar, konungs á Messínu en þeir röktu ættir sínar aftur til Póseidons.[7] Langalangafi Peiktíone, móður Platons, var Dropídes, bróðir Sólons, hins fræga löggjafa Aþeninga.[8] Bróðir hennar var Karmídes en föðurbróðir hennar var Krítías. Þeir tóku þátt í harðstjórn þrjátíumenninganna eftir að aþenska lýðræðið hrundi við lok Pelópsskagastríðsins.[9] Platon átti tvo bræður, Adeimantos og Glákon, og eina systur, Potone. Hún var móðir Spevsipposar sem tók við stjórn Akademíunnar eftir andlát Platons.

Fornar sögur hermdu að Ariston hafi reynt að koma fram vilja sínum við Peiktíone en hafi ekki haft erindi sem erfiði. Guðinn Apollon á þá að hafa birst honum og sagt honum að láta Peiktíone í friði. Ariston á að hafa gert það en Peiktíone varð samt þunguð af Platoni.[10]

Ariston virðist hafa látist þegar Platon var enn ungur að árum en dánarár hans er þó óþekkt.[11] Peiktíone gekk þá að eiga Pýrilampes, móðurbróður sinn.[12] Hann var vinur Períklesar, leiðtoga lýðræðissinna í Aþenu. Pýrilampes átti soninn Demos úr fyrra hjónabandi. Sá var rómaður fyrir fegurð sína. Peiktíone fæddi Pýrilampesi soninn Antífon.

Í samræðum Platons bregður ættingjum hans oft fyrir enda þótt hann komi aldrei fram í þeim sjálfur. Eftir Karmídesi er nefnd samræðan Karmídes og eftir Krítíasi er nefnd samræðan Krítías en Krítías kemur einnig fyrir í samræðunni Prótagórasi. Adeimantos og Glákon eru aðalviðmælendur Sókratesar í Ríkinu.

Platon dundaði sér við myndlist og skáldskap þegar hann var ungur. Hann samdi bæði lýrísk ljóð, kórljóð og harmleiki. Hann var í þann mund að leggja fram harmleiki sína í leikritakeppni þegar hann heyrði Sókrates tala fyrir framan Díonýsosarleikhúsið. Þá hætti hann við og brenndi harmleiki sína.[13]

Platon ferðaðist víða, sennilega til Ítalíu, Sikileyjar, Egyptalands og Kýrenu á Norður-Afríku. Talið er að Platon hafi yfirgefið Aþenu eftir að Sókrates var tekinn af lífi árið 399 f.Kr. en hafi snúið aftur um tólf árum síðar. Þá stofnaði hann Akademíuna í lundi helguðum Hekademosi eða Akademosi rétt utan við borgarmörk Aþenu. Þar var starfræktur skóli allt til ársins 529 e.Kr. þegar Jústiníanus I lét loka skólanum sem hann taldi ógna kristninni.

Platon heimsótti Sikiley að minnsta kosti þrisvar sinnum eftir að hann stofnaði Akademíuna. Meginheimildirnar um þessar ferðir eru bréf sem eignuð eru Platoni sjálfum. Óvíst er hvort þau séu ósvikin. Platon lést í Aþenu árið 347 f.Kr., áttræður að aldri.

[breyta] Ritverk

Þegar í fornöld varð til sú hefð að raða verkum Platons saman í fernur eða fjórleiki.[14] Díogenes Laertíos segir að upphafsmaður þessa hafi verið Þrasýllos, fræðimaður og stjörnuspekingur við hirð Tíberíusar keisara.

[breyta] Fjórleikir

Í listanum að neðan eru verk Platons merkt (*) ef ekki er samkomulag almennt meðal fræðimanna um hvort verkið er réttilega eignað Platoni, og (†) ef fræðimenn eru almennt á einu máli um að Platon sé ekki talinn raunverulegur höfundur þess. Ómerkt verk eru þau sem fræðimenn eru almennt sammála um að séu ósvikin verk Platons.

Fræðimenn vísa einatt til verka Platons með latneskum titli, eins og venja er um klassíska höfunda, og eru því latneskir titlar hafðir innan sviga á eftir íslenskum titlum.

[breyta] Verk utan fjórleikja

Önnur verk hafa varðveist í handritum með verkum Platons og voru eignuð honum í fornöld en voru ekki talin ósvikin af Þrasýllosi. Nútíma fræðimenn eru almennt sammála um að þessi verk séu ekki eftir Platon en sum þeirra gætu hafa verið samin af einhverjum innan Akademíunnar. Þau eru:

[breyta] Blaðsíðutal Stephanusar

Hefð er fyrir því að vísa til verka Platons með blaðsíðutali úr heildarútgáfu Henricusar Stephanusar (Henri Etienne) á verkum Platons sem kom út í Genf árið 1578. Blaðsíðutal þessarar útgáfu er venjulega haft á spássíu textans í öllum nútíma útgáfum og þýðingum á honum. Um þetta má lesa nánar í grein um blaðsíðutal Stephanusar.

[breyta] Heimspeki

Platon var undir miklum áhrifum frá Sókratesi, en einnig öðrum grískum heimspekingum, þar á meðal Herakleitosi, Parmenídesi og pýþagóringum.

[breyta] Frumspeki og þekkingarfræði

Frægasta kenning Platons er frummyndakenningin.[15] Platon taldi efnisheiminn vera lélega eftirlíkingu af óbreytanlegum óhlutbundnum frummyndum sem eru utan tíma og rúms og verða ekki skynjaðar með skynfærum en sem mögulegt er að kanna og skilja með hugsun. Frummyndirnar gegna fjórþættu hlutverki: frumspekilegu, þekkingarfræðilegu, merkingarfræðilegu og siðfræðilegu. Þær eru raunverulegar og stöðugar verundir, ólíkt efnisheiminum sem er sífellt verðandi og er aldrei neitt. Af því að þær eru í orðsins fylltsu merkingu eru þær viðföng þekkingar en efnisheimurinn er einungis viðfang brigðulla skoðana. Frummyndirnar eru einnig merkingarmið hugtaka og gegna þannig merkingarfræðilegu hlutverki í heimspeki Platons. Að lokum gegna þær siðfræðilegu hlutverki en meðal frummyndanna ríkir stigskipting og efst trónir frummynd hins góða. sem alllir góðir hlutir líkjast eða eiga hlutdeild í. Frummyndakenningin kemur fyrir í nokkrum samræðum, m.a. Fædoni, Ríkinu, Samdrykkjunni, Parmenídesi og Tímajosi

[breyta] Siðfræði

Frummyndakenningin gegndi meðal annars hlutverki siðfræðikenningar en kenningin varð ekki til fyrr en á miðjum ferli Platons. En siðfræði hafði lengi verið Platoni hugleikin. Í elstu samræðunum gæli Platon við þá hugmynd Sókratesar að dygð sé þekking.[16] Í samræðunum Prótagórasi og Lakkesi reifar Platon hugmyndir sem hafa verið nefndar kenningin um einingu dygðanna.[17] Kenningin kveður á um að dygðirnar séu allar í reynd ein og sama dygðin, nefnilega þekking eða kunnátta af ákveðnu tagi. Birtingarmyndir dygðarinnar eru á hinn bóginn margvíslegar eftir því hvernig aðstæðum er háttað. Þessar ólíku birtingarmyndir dygðarinnar heita hver sínu nafni: hófsemi, hugrekki og þar fram eftir götunum. Önnur túlkun á kenningunni kveður á um að dygðirnar séu aðskildar en hafi maður eina, þá hefur maður aðra, því þekking eða kunnátta er bæði nauðsynleg og nægjanleg forsenda dygðar: sá dygðugi — til dæmis sá hugrakki — verður að búa yfir þekkingu en sá sem býr yfir þekkingu uppfyllir öll skilyrði þess að vera dygðugur — til dæmis hófsamur.[18]

Réttlæti er dygð en ranglæti er ekki aðeins löstur, heldur „sjúkdómur sálarinnar“.[19] Ranglæti er hinum rangláta sjálfum skaðlegt og af þeim sökum er verra að vera ranglátur en að vera beittur ranglæti af öðrum. Hugmyndin kom fyrst fram í samræðunni Gorgíasi en í Ríkinu setur Platon fram kenningu um réttlæti sem heilbrigt sálarástand.[20]

[breyta] Sálarfræði

Platon taldi að sálin væri ódauðleg og endurfæddist í nýjan líkama að lífinu loknu.[21] Líkamanum er lýst sem fangelsi sálarinnar. Platon hafði einnig kenningu um þrískiptingu sálarinnar, sem hann notaði m.a. til að útskýra breyskleika. Þessir þrír hlutar sálarinnar voru skynsemi, löngun og skap. Það er eðli skynseminnar að sækjast eftir sannleika og þekkingu og henni er líka eðlislægt að stjórna. Skapið leitar eftir viðurkenningu en löngunin leitar eftir ánægju í formi matar, drykkjar og kynlífs.[22]

[breyta] Stjórnspeki

Platon setti fram eina fyrstu útgáfu af samfélagssáttmálakenningu í vestrænni heimspeki í ritinu Krítoni.[23] Samfélagssáttmálakenningar um undirstöður ríkisvalds urðu áhrifamiklar í nýaldarheimspeki hjá höfundum eins og Thomasi Hobbes, John Locke og Jean-Jacques Rousseau. En þekktasta stjórnspekikenning Platons er hugsjón hans um fyrirmyndarríkið sem sett er fram í Ríkinu.[24] Platon hafði litla trú á lýðræði. Hann taldi að rétt eins sérfræðingar ættu að ráða í þeim málum sem þeir hafa sérfræðiþekkingu á rétt eins og skynsemin ætti að ríkja yfir skapi og löngunum ættu heimspekingar að ráða yfir ríkinu. Meðal heimspekinganna eru bæði konur og karlar sem eiga að baki langt nám í heimspeki og öðrum greinum, sem eru eignalaus og hafa enga eiginhagsmuni. Seinna snerist Platoni hugur og í Stjórnvitringnum og Lögunum kemur fram önnur sýn á stjórnmál. Þar virðist Platon hafa öðlast aðeins meiri trú á lýðræði og virðist telja hana illskásta kostinn, ekki síst vegna þess að þótt góður og upplýstur einvaldur væri betri stjórnandi væri allt of mikil hætta á að sitja uppi með slæman einvald.

[breyta] Áhrif Platons

Platon er einn áhrifamesti hugsuður sögunnar.[25] Alfred North Whitehead komst svo að orði að öll saga heimspekinnar væri einungis röð neðanmálsgreina við Platon. Whitehead átti ekki við að heimspekingar síðari tíma hefðu ekkert mikilsvert haft fram að færa, heldur að þeir hafi í meginatriðum gert það innan þess ramma sem Platon setti heimspekinni. Kenningar Platons hafa í gegnum tíðina bæði verið samþykktar og þeim hefur verið hafnað en meira að segja andmælendur Platons hafa fengist við sömu spurningar og Platon spurði.

Heimspeki Platons er oft borin saman við heimspeki Aristótelesar, nemanda hans. Á miðöldum voru rit Aristótelesar þekktari í Vestur-Evrópu og áhrif hans urðu töluvert meiri en áhrif Platons.[26] Í skólaspekinni var Aristóteles einfaldlega nefndur „heimspekingurinn“. Aftur á móti voru rit Platons ætíð þekkt og lesin í Býsansríkinu.

Skólaspekingar miðalda höfðu ekki aðgang að ritum Platons (nema í mjög litlum mæli) og kunnu ekki forngrísku. Handrit með samræðum Platons fóru fyrst að berast vestur frá Konstantínópel um einni öld áður en borgin féll í hendur aröbum árið 1453. Georgíos Pleþon Gemistos hafði þau með sér til Ítalíu. Áður höfðu fræðimenn í Vestur-Evrópu einungis þekkt latneskar þýðingar af stuttum köflum úr samræðum Platons og seinna latneskar þýðingar á arabískum þýðingum af ritum Platons. Arabískir fræðimenn sem varðveittu ritin sömdu einnig fjöldamörg skýringarrit við texta bæði Platons og Aristótelesar. Þeirra á meðal voru Al-Farabi, Avicenna og Averroes.

Þekking á platonskri heimspeki náði fyrst útbreiðslu í Vestur-Evrópu á endurreisnartímanum. Margir af helstu hugsuðum og vísindamönnum þessa tíma brutust undan áhrifum skólaspekinnar og töldu platonska heimspeki frosendu framfara í listum og vísindum.

Vestrænir heimspekingar hafa æ síðan þegið innblástur úr verkum Platons. Áhrifa hans gætir ekki síður í stærðfræði og vísindum. Albert Einstein byggði á hugmyndum Platons um óbeytanlegan veruleika sem undirliggur sífelldum breytingum í heimi sýndarinnar þegar hann andmælti þeirri líkindafræðilegu mynd af heiminum sem Niels Bohr dró upp í túlkun sinni á skammtafræðinni. Aðrir hugsuðir hafa gert uppreisnir gegn hugmyndum Platons. Friedrich Nietzsche réðst til að mynda á siðfræði og stjórnspekikenningar Platons. Stjórnspekikenningar Platons sættu einnig árásum frá Karl Popper sem hélt því fram í riti sínu Opna samfélagið og óvinir þess (e. The Open Society and Its Enemies (1945) að stjórnspeki Platons í Ríkinu væri dæmigerð alræðishugmyndafræði. Og Martin Heidegger andmælti hugmyndum Platons um veruna.

[breyta] Tilvísanir

  1. Geir Þ. Þórarinsson, „Hvaða áhrif höfðu kenningar Platons á aðra heimspekinga, vísindamenn og fólk almennt?“, Vísindavefurinn 8.6.2006. (Skoðað 7.8.2007).
  2. Díogenes Laertíos, III.1. Um ævi og störf Platons, sjá m.a. Geir Þ. Þórarinsson, „Hver var Platon?“, Vísindavefurinn 31.8.2005. (Skoðað 7.8.2007); Thomas Brickhouse og Nicholas D. Smith, „Plato (c. 427-347 B.C.E): 1. Biography“, The Internet Encyclopedia of Philosophy (2006) (Skoðað 8.8.2007).
  3. Díogenes Laertíos, III.4. Gríska orðið πλάτυς (platys) þýðir „breiður“.
  4. Annas (2003): 12 dregur söguna í efa. Um nafn Platons, sjá Notopoulos (1939): 135-145.
  5. Díogenes Laertíos, III.3.
  6. Samkvæmt sumum heimildum fæddist hann árið 429 f.Kr. en ósennilegt er að það sé rétt. Sjá Geir Þ. Þórarinsson, „Hver var Platon?“, Vísindavefurinn 31.8.2005. (Skoðað 7.8.2007).
  7. Díogenes Laertíos, III.1.
  8. Díogenes Laertíos, III.1.
  9. Guthrie (1975): 10; Taylor (1926): xiv.
  10. Díogenes Laertíos, III.2.
  11. Taylor (1926): xiv.
  12. Platon, Karmídes 158a.
  13. Díogenes Laertíos, III.5.
  14. Um ritverk Platons, sjá Geir Þ. Þórarinsson, „Hver eru helstu ritverk Platons?“, Vísindavefurinn 26.9.2005. (Skoðað 7.8.2007).
  15. Um frummyndakenninguna, sjá Geir Þ. Þórarinsson, „Eru menn aðeins eftirmyndir af hinum fullkomna manni eða konu, líkt og málverk af stól er aðeins eftirmynd af einhverjum ákveðnum stól?“, Vísindavefurinn 19.9.2005. (Skoðað 6.2.2007). Um frumspeki og þekkingarfræði Platons, sjá Geir Þ. Þórarinsson, „Hvað hafði Platon að segja um viskuna og þekkinguna?“, Vísindavefurinn 14.10.2005. (Skoðað 9.8.2007); Allan Silverman, „Plato's Middle Period Metaphysics and Epistemology“, Stanford Encyclopedia of Philosophy (2003) (Skoðað 9.8.2007); og White (1976).
  16. Geir Þ. Þórarinsson, „Hverjar voru helstu heimspekihugmyndir Platons?“, Vísindavefurinn 3.11.2005. (Skoðað 6.2.2007).
  17. Geir Þ. Þórarinsson, „Hverjar voru helstu heimspekihugmyndir Platons?“, Vísindavefurinn 3.11.2005. (Skoðað 6.2.2007).
  18. Geir Þ. Þórarinsson, „Hverjar voru helstu heimspekihugmyndir Platons?“, Vísindavefurinn 3.11.2005. (Skoðað 6.2.2007).
  19. Geir Þ. Þórarinsson, „Hverjar voru helstu heimspekihugmyndir Platons?“, Vísindavefurinn 3.11.2005. (Skoðað 6.2.2007).
  20. Sjá Platon, Gorgías 508D-E.
  21. Ódauðleiki sálarinnar er ræddur í ritinu Fædon. Um platonska sálarfræði, sjá Geir Þ. Þórarinsson, „Hverjar voru helstu heimspekihugmyndir Platons?“, Vísindavefurinn 3.11.2005. (Skoðað 6.2.2007).
  22. Geir Þ. Þórarinsson, „Hverjar voru helstu heimspekihugmyndir Platons?“, Vísindavefurinn 3.11.2005. (Skoðað 6.2.2007). Kenningin um þrískiptingu sálarinnar er sett fram í Ríkinu.
  23. Um stjórnspeki Platons, sjá W. J. Korab-Karpowicz „Plato's Political Philosophy“, The Internet Encyclopedia of Philosophy (2006) (Skoðað 9.8.2007); Richard Kraut, „Plato: 10. Does Plato change his mind about politics?“, Stanford Encyclopedia of Philosophy (2004) (Skoðað 9.8.2007); og Chris Bobonich, „Plato on Utopia“, Stanford Encyclopedia of Philosophy (2006) (Skoðað 9.8.2007).
  24. Um stjórnspeki Platons, sjá Geir Þ. Þórarinsson, „Hverjar voru helstu heimspekihugmyndir Platons?“ Vísindavefurinn 3.11.2005. (Skoðað 6.2.2007).
  25. Geir Þ. Þórarinsson, „Hvaða áhrif höfðu kenningar Platons á aðra heimspekinga, vísindamenn og fólk almennt?“, Vísindavefurinn 8.6.2006. (Skoðað 7.8.2007).
  26. Um áhrif Aristótelesar á miðöldum, sjá Gunnar Harðarson, „Hvaða áhrif hafði Aristóteles á miðöldum og fyrir hvað var hann þekktur?“ Vísindavefurinn 21.6.2002. (Skoðað 9.8.2007). Sjá einnig Geir Þ. Þórarinsson, „Hafa rit Platons og Aristótelesar verið útbreidd og þekkt frá því þau voru skrifuð?“, Vísindavefurinn 13.10.2006. (Skoðað 12.8.2007).

[breyta] Heimildir og frekari fróðleikur

  • Greinin „Plato á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 4. nóvember 2005.
  • Annas, Julia, An Introduction to Plato's Republic (Oxford: Oxford University Press, 1981).
  • Annas, Julia, Plato: A Very Short Introduction (Oxford, 2003).
  • Blondell, Ruby, The Play of Character in Plato's Dialogues (Cambridge: Cambridge University Press, 2002).
  • Bobonich, Christopher, Plato's Utopia Recast: His Later Ethics and Politics (Oxford: Oxford University Press, 2002).
  • Brandwood, Leonard, The Chronology of Plato's Dialogues (Cambridge: Cambridge University Press, 1990).
  • Brickhouse, Thomas C. og Smith, Nicholas D., Plato's Socrates (Oxford: Oxford University Press, 1994).
  • Corlett, J. Angelo, Interpreting Plato's Dialogues (Las Vegas: Parmenides Publishing, 2005).
  • Crombie, I.M., An Examination of Plato's Doctrines. (London: Routledge & Kegan Paul, 1963).
  • Ferrari, G.R.F., The Cambridge Companion to Plato's Republic (Cambridge: Cambridge University Press, 2007).
  • Fine, Gail (ritstj.), Plato 1: Metaphysics and Epistemology (Oxford: Oxford University Press, 1999).
  • Fine, Gail (ritstj.), Plato 2: Ethics, Politics, Religion, and the Soul (Oxford: Oxford University Press, 1999).
  • Griswold, Charles L. (ritstj.), Platonic Writings, Platonic Readings (London: Routledge, 1988).
  • Guthrie, W.K.C., A History of Greek Philosophy IV: Plato: The Man and His Dialogues, Earlier Period (Cambridge: Cambridge University Press, 1975).
  • Guthrie, W.K.C., A History of Greek Philosophy V: The Later Plato and the Academy (Cambridge: Cambridge University Press, 1978).
  • Havelock, Eric A., Preface to Plato (Cambridge, Mass.: Harvard University Press, 1963).
  • Irwin, Terence, Plato's Ethics (Oxford: Oxford University Press, 1995).
  • Kahn, Charles, H., Plato and the Socratic Dialogue: The Philosophical Use of a Literary Form (Cambridge: Cambridge University Press, 1996).
  • Kraut, Richard (ritstj.), The Cambridge Companion to Plato (Cambridge: Cambridge University Press, 1992).
  • Notopoulos, A., „The Name of Plato“, Classical Philology 34 (2) (1939): 135-145.
  • Rowe, C.J., Plato (London: Duckworth, 2003).
  • Santas, Gerasimos, The Blackwell Guide to Plato's Republic (Oxford: Blackwell, 2006).
  • Sayre, Kenneth, Plato's Literary Garden (Syracuse: University of Notre Dame Press, 1995).
  • Silverman, Allan, The Dialectic of Essence: A Study of Plato's Metaphysics (Princeton: Princeton University Press, 2002).
  • Sheffield, Frisbee, Plato's Symposium: The Ethics of Desire (Oxford: Oxford University Press, 2006).
  • Shields, Cristopher (ritstj.), The Blackwell Guide to Ancient Philosophy (London: Blackwell, 2003).
  • Taylor, C.C.W. (ritstj.), Routledge History of Philosophy. Volume 1: From the Beginning to Plato (London: Routledge, 1997).
  • Taylor, A.E., Plato: The Man and His Work (London: Methuen & Co., 1926).
  • White, Nicholas P., Plato on Knowledge and Reality (Indianapolis: Hackett, 1976).
  • Young, Charles M., „Plato and Computer Dating“, Oxford Studies in Ancient Philosophy 12 (1994): 227-250.

[breyta] Tenglar

Wikivitnun hefur upp á að bjóða safn tilvitnana á síðunni: