Þorramatur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þorramatur er hefðbundinn íslenskur matur sem hefð er fyrir að bera fram á þorranum, sérstaklega á svokölluðum þorrablótum, sem eru miðsvetrarhátíð í fornum stíl. Mörg veitingahús í Reykjavík og annars staðar bjóða þá þorramat, sem oftast eru kjöt- eða fiskafurðir, verkaðar með hefðbundnum aðferðum og bornar fram niðursneiddar í trogum.

Upphaf þorramatar má rekja til þess þegar veitingastaðurinn Naustið við Vesturgötu í Reykjavík tók árið 1958 að bjóða upp á sérstakan „þorrabakka“ sem innihélt nokkra rétti sem voru vel þekktir úr íslenskum sveitum áður fyrr en voru orðnir sjaldséðir á borðum landsmanna á 6. áratugnum. Á þeim tíma voru mörg stærstu þorrablótin í Reykjavík haldin af átthagafélögum og fljótlega varð vinsælt að bera slíkan mat fram þar enda margir kunnugir þessum mat frá fyrri tíð.

Á síðari árum hefur færst í vöxt að á þorrabakkanum séu líka matvæli sem eiga sér langa sögu en eru ekki óalgeng, s.s. harðfiskur og hangikjöt. Margir veitingastaðir bjóða upp á val milli hefðbundinna súrsaðra og ósúrra þorrabakka. Þorramaturinn hefur þannig þróast með árunum til að taka mið af breytingum á matarsmekk.

[breyta] Dæmi um þorramat

  • Kæstur hákarl
  • Súrsaðir hrútspungar
  • Sviðasulta
  • Lifrarpylsa
  • Blóðmör
  • Harðfiskur
  • Rúgbrauð
  • Hangikjöt
  • Lundabaggi
  • Selshreifar
  • Fótasulta
  • Rengi
Á öðrum tungumálum