Niflheimur
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
| Hluti af greinaflokknum Norræn goðafræði |
| Helstu goð |
| Æsir: Óðinn, Þór, Baldur, Loki, Höður, Bragi, Mímir Ásynjur: Frigg, Iðunn, Sif Vanir: Njörður, Freyja, Freyr |
| Aðrir |
| Jötnar: Ýmir, Bor, Bestla, Angurboða, Skaði, Hel, Ægir Skepnur: Auðhumla, Fenrisúlfur, Sleipnir, Miðgarðsormur, Heiðrún, Tanngnjóstur og Tanngrisnir, Huginn og Muninn Aðrir: Askur og Embla; Urður, Verðandi og Skuld; Dvergar, Álfar |
| Staðir |
| Ásgarður, Miðgarður, Útgarður, Niflheimur, Hel, Bifröst, Askur Yggdrasils |
| Rit |
| Sæmundaredda, Snorra-Edda, Heimskringla, Gesta Danorum |
| Trúfélög |
| Íslenska ásatrúarfélagið, Danska ásatrúarfélagið, Ásatrúarfélagið Bifröst, Reykjavíkurgoðorð. |
Samkvæmt norrænum sköpunarfrásögnum var Niflheimur í upphafi lengst í norðri. Sköpunarfrásögn Snorra Eddu segir að í upphafi hafi Ginnungagap verið milli Niflheims í norðri og Múspells í suðri. Í Niflheimi var afskaplega kalt en í Múspelli var funheitt og þegar hrím Niflheims og gneistar Múspells mættust varð jötuninn Ýmir. Úr honum gerðu Óðinn og bræður hans svo jörðina.
Óðinn kastaði Hel í Niflheim þegar hún fæddist og eru þar hinir níu undirheimar sem hún ræður yfir. Ein þriggja róta Asks Yggdrasils liggur í Niflheim en hana nagar ótt og títt hinn ógurlegi dreki Níðhöggur. Undir rótinni er brunnurinn Hvergelmir og renna úr honum fjölmörg fljót.

