Íslensk teiknimyndasaga

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þessi grein þarfnast hreingerningar svo hún hæfi betur sem grein hér á Wikipedia. Skoðaðu sýnigreinar og nafnavenjurnar til að bæta hana.

Íslenskar myndasögur eru teiknimyndasögur gerðar fyrir íslenskan lesendahóp. Íslenskar teiknimyndasögur gerðar af Íslendingum verða að teljast lítið áberandi í íslensku menningarlífi og hafa að mestu verið bundnar við skopmyndir og stuttar myndasögur sem hafa birst í dagblöðum og tímaritum. Örfáar íslenskar myndasögubækur hafa verið gefnar út og flestar eru þá safn þeirra myndasagna sem áður hafa birst í dagblöðum og tímaritum.

[breyta] Ágrip af sögu íslenskra myndasagna

Fyrsta íslenska myndasagan hefur verið eignuð Mugg (Guðmundur Thorsteinsson, f. 1891, d. 1924) sem bar nafnið Ungfrúrnar þrjár og birtist í Morgunblaðinu árið 1924. Skopmyndir fóru að líta dagsins ljós, þar sem skopast var að þjóð og þekktum einstaklaklingum í þjóðfélaginu og hefur hugmyndin líklegast komið frá erlendum dagblöðum.

Kattafarganið sem Tryggvi Magnússon teiknaði í tímaritið Spegill er gott dæmi um þróun íslenskra myndasagna og skopmynda í upphafi. Ef hægt er að tala um hefð íslenskra myndasagna, þá helst að hún hefur þróast út frá íslenskum skopmyndum.

Þó að bandarísk hasarblöð hafi byrjað að berast til Íslands eftir seinni heimstyrjöld þá ber þess ekki mikils merki á íslenskum myndasögum. Evrópskar myndasögur t.d. Tinni, Ástríkur og Lukku Láki voru gefin út í íslenskri þýðingu upp úr árinu 1970.

Uppúr árinu 1980 fóru fyrstu íslensku myndasögurnar að líta dagsins ljós sem voru ekki bundnar við skopmyndarstílinn og verður að teljast fyrsta útgefna íslenska myndasögubókin að vera barnabókin Pétur og vélmennið: Vísindaráðstefnan sem að Kjartan Arnórsson (f. 1965) gaf út árið 1979, þá aðeins 14 ára.

Fyrsta tímaritið sem var eingöngu helguð íslenskum myndasögum var tímaritiðið Bandormur sem var gefið út árið 1987. Tímaritið GISP! var gefið út af aðrum hóp og fóru þeir seinna að tengja útgáfuna við sýningar á íslenskum myndasögum, oftast ásamt myndasögum frá öðrum löndum.

[breyta] Íslenskar myndasögubækur

Íslensk bókaforlög hafa verið treg að gefa út myndasögubækur eftir íslenska höfunda og því hafa þeir neyðst til að gefa út bækurnar sjálfir og dreifa. Bækurnar eru því gefnar út í mjög takmörkuðu magni og eru ekki áberandi í bókabúðum eða fjölmiðlum fyrir vikið. Seinni árin hefur þetta þó batnað og íslensk forlög hafa verið opnari fyrir íslenskum myndasögum.

Fyrsta skráða myndasagan sem að ver gefin út í bók var lítill bæklingur sem að bar nafnið Láki og lífið og teiknað af Ragnari Lár (f. 1935). Í bæklingnum voru skopmyndir sem að höfðu birst í Þjóðviljanum af Láka og rýn hans á íslenskt þjóðlíf.

Fyrsta íslenska myndasagan sem gefin var út, var barnabókin Pétur og vélmennið: Vísindaráðstefnan sem að Kjartan Arnórsson (f. 1965) gaf út árið 1979, þá aðeins 14 ára. Hann fylgdi bókinni eftir tveimur árum síðar, árið 1981, með barnabókinni Pétur og vélmennið: frosinn fjarsjóður. Það sama ár kom út bók efitr Emil H. Valgeirsson (f. 1965) sem bar nafnið Flauga-spaug: ýmsar tilraunir til eldflaugaskota.

Árið 1985 gaf Björn Ólafsson (f. 1954) út bókina Ævintýri burstasölumanns: splunkuný, ekta, alvöru myndasaga og árið 1990 eignaðust Íslendingar sína fyrstu ofurhetju Kafteinn Ísland í bók Kjartans Arnórssonar, Kafteinn Ísland: hvernig Fúsi Ánason verður hetja dagsins!.

Dæmi um sjálfsútgáfu er bók Kristjáns Jóns Guðnasonar (f. 1943) Óhugnalega plánetan sem að hann gaf út árið 1992. Fimmtán árum síðar, árið 2007, gaf hann svo út aðra bók sína Edensgarðurinn.

Búi Kristjánsson hefur sótt efni sitt til Íslendingasagnanna og árin 1993-4 gaf hann út tvö bindi byggða á Laxdælu.

Ingólfur Örn Björgvinsson og Embla Ýr Bárudóttir (f. 1973) hafa undanfarin ár gert bækur byggðar á Njálu og eru fjórar bækur komnar út: Blóðregn (2003), Brennan (2004), Vetrarvíg (2005) og er ein væntanleg núna í ár, Hetjan (2007).

Bjarni Hinriksson (f. 1963) gaf út fyrstu bók sína Stafrænar fjaðrir árið 2003 og fylgdi því eftir með bókinni Krassandi samvera, sem var samin ásamt Dönu Jónsson, árið 2005.

Hugleikur Dagsson (f. 1977) gaf út sína fyrstu myndasögubók árið 2005 Forðist okkur og hefur fylgt því eftir með bókunum Bjargið okkur (2005), Fermið okkur (2006), Fylgið okkur (2006), Eineygði kötturinn Kisi og hnakkarnir (2006) og núna síðast Ókei bæ (2007).

[breyta] Íslensk myndasögutímarit

Fyrsta íslenska myndasögutímaritið sem gefið var út hét Bandormur og kom út árið 1982. Blaðið var svokallað neðanjarðarblað (e. underground) og því eru til mjög fá eintök á bókasöfnum. Þeir sem stóðu fyrir útgáfu blaðsins voru Ómar Stefánsson og Óskar Thorarensen.

Tímaritið GISP! (Guðdómleg Innri Spenna og Pína) var gefið út af aðrum hóp og fóru þeir seinna að tengja útgáfuna við sýningar á íslenskum teiknimyndasögum, oftast ásamt teiknimyndasögum frá öðrum löndum. Fyrsta eintak GISP var gefið út árið 1990. Þeir sem stóðu af útgáfu blaðsins voru Bjarni Hinriksson, Halldór Baldursson, Jóhann Torfason og Þorri Hringsson. Alls hafa komið út 9 blöð.

Hasarblaðið Blek kom fyrst út árið 1996 og er gefið út í dag undir nafninu NeoBlek.

Myndasögublaðið Skríbó var gefið út árið 1996.

Myndasögublaðið Zeta var gefið út af NordicComics og var helsti drifkrafturinn Búi Kristjánsson. Innihald blaðsins var að mestu franskar teiknimyndasögur ásamt einstaka íslenskri teiknimyndasögu.