SG - hljómplötur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

SG-hljómplötur Logo af bæklingi
SG-hljómplötur Logo af bæklingi

SG-hljómplötur var útgáfufyrirtæki Svavars Gests (1926 - 1996) en það stofnaði hann árið 1964. Alls gaf fyrirtækið út 80 litlar, 45-snúninga plötur og 180 LP plötur þau 20 ár sem fyrirtækið starfaði.

Efnisyfirlit

[breyta] Saga

Svavar Gests í New York 1947
Svavar Gests í New York 1947

Árið 1992 kom út hjá bókaútgáfunni Fróða bókin Hugsað upphátt þar sem Svavar rekur æviskeið sitt. Þar fjallar hann meðal annars um skemmtiþætti sem hann hafði í Útvarpinu á árunum 1963 - 1964 þar sem hann fékk nokkra söngvara úr karlakórnum Fóstbræðrum til að flytja lagasyrpur til skemmtunar. Um þessa þætti sem nefndust "Sunnudagskvöld með Svavari Gests" og hljómplötuúgáfuna segir hann meðal annars:

Þegar útvarpsþáttunum lauk vorið 1964 ákvað ég að bjóða Tage Ammendrup lagasyrpur Fjórtán Fóstbræðra og hljómsveitarinnar til útgáfu á hljómplötu. Ég var ekki í minnsta vafa um að þeim yrði vel tekið því slíkar voru vinsældir kórsins í þáttunum. Hann sagðist vera að draga saman seglin sem plötuútgefandi og benti mér á að gefa bara plötuna út sjálfur. Hann gaf mér upp heimilisfang fyrirtækis í Noregi, A.S. NERA, sem hafði séð um alla „pressun" á plötum þeim sem hann hafði gefið út síðustu tíu árin. Ég skrifaði fyrirtækinu og það stóð ekki á samstarfi. Ég sendi segulbandsspólu með lögunum og fékk símskeyti frá NERA nokkrum dögum síðar þar sem spurt var hvaða fyrirtæki gæfi plötuna út. Það vantaði upplýsingar um það sem setja þyrfti á plötumiðann. Í svipinn datt mér ekkert nafn í hug enda átti þetta aðeins að verða ein plata, ég ætlaði alls ekki að gerast plötuútgefandi. Ég hélt það vera í lagi að setja á plötumiðann í þetta sinn: SG-hljómplötur. .“

— Svavar Gests,.

Þessi plata kom svo út 1964 og varð metsöluplata. Þar með var grunnurinn að SG – hljómplötum lagður og brátt óx fyrirtækið í eitt af stærstu útgáfufyrirtækum landsins með marga fremstu listamenn þjóðarinnar á sínum snærum, svo sem; Ellý Vilhjálms, Ragnar Bjarnason, Vilhjálm Vilhjálmsson, Ómar Ragnarson, Savanna tríóið og Hljóma. Önnur fyrirtæki í tónlistarútgáfu voru á þessum tíma um það bil að hætta eða höfðu dregið verulega úr starfsemi sinni. Fyrirtæki Tage Ammedrup Íslenskir Tónar hafði hætt útgáfu og Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur, sem hafði gefið út plötur undir merkinu HSH var að hætta. Fálkinn sem var umsvifamikill í plötuútgáfu hafði dregið seglin saman þannig að Svavar varð nánast einráður á markaðnum og SG – hljómplötur blómstruðu.


[breyta] Útgáfan

Þar sem Svavar var sjálfur tónlistarmaður (lék á trommur og xylafon) og hafði hlustað mikið á allar tegundir tónlistar, litaðist útgáfan af fjölbreytni. Dægurtónlist, popp, einsöngur, kórar, barnalög, gamanefni og rímur er nokkuð af því mikla efni sem rataði á SG – hljómpötur. Sumar plötur rokseldust en aðrar hreyfðust ekki neitt eins og Svavar getur um í bók sinni:

Sennilega var það vegna þess að ég hafði starfað sem hljómlistarmaður árum saman og hlustað mikið á hvers konar tónlist sem ég gaf talsvert mikið út af plötum sem ég vissi fyrirfram að mundu aldrei standa undir sér. Ég ætlaðist heldur ekki til þess og gerði mér grein fyrir að þær plötur, sem seldust vel, yrðu að greiða niður tapið af útgáfu hinna. Hljómplötuútgáfan var því að hluta til eins konar hugsjón og þegar ég lít yfir farinn veg þykir mér vænst um þær plötur sem ég gaf út eingöngu vegna þess að mig langaði til að gefa þær út. .“

— Svavar Gests,.

[breyta] SG-hljómplötur leggja árar í bát

Þegar Svavar hafði gefið út plötur í fimmtán ár við góðan orðstýr skutu tvö ný fyrirtæki upp kollinum og gerðu sig gildandi. Það voru fyrirtækin Steinar og Skífan sem höfðu púlsinn á unga fólkinu og náðu til sín markaðinum á skömmum tíma. Hlutur Svavars varð því öllu rýrari og 1984 ákveður hann að hætta:

Hlutur minn í seldum íslenskum plötum minnkaði með hverju árinu. Þegar svo var komið að SG-hljómplötur sýndu fram á verulegt tap ákvað ég að leggja árar í bát. Ég gaf út síðustu plötuna árið 1984 og hætti rekstri í byrjun ársins 1985. Þá hafði ég gefið út eitt hundrað og áttatíu stórar plötur, 33ja snúninga, og áttatíu litlar plötur, 45 snúninga. Ekkert íslenskt hljómplötufyrirtæki hefur gefið út jafn margar plötur. .“

— Svavar Gests,.

[breyta] Íslensk tónlistarsaga

Hlutur Svavars Gests og SG - hljómplatna í íslenskri tónlistarsögu er ómetanlegur. Hér hafa varðveist verk listamanna sem annars hefðu orðið hít tímans að bráð og gleymst. Ýmsar hljómsveitir, einsöngvara, kóra, gamanmál, ljóð, þjóðlög, jólaefni, leikrit, barnalög og rímur er hér að finna þrykkt á vinyl komandi kynslóðum til gagns og gamans.


[breyta] Útgáfuréttur

Útgáfuréttinn á SG – hljómplötum og Íslenskum Tónum sem Svavar átti, seldi hann til fyrirtækisins Steinars en í dag er rétturinn í eigu Senu, -fjölmiðlafyrirtækis 365 miðla sem á útgáfuréttinn að öllu efni sem SG -hljómplötur gaf út. Sena hefur veitt góðfúslegt leyfi sitt fyrir birtingu SG - umslaga og hljóðdæma. Synir Svavars þeir Nökkvi og Máni hafa veitt góðfúslegt leyfi fyrir birtingu á efni úr bók Svavars "Hugsað upphátt".


[breyta] Hljómplötulisti

Í eftirfarandi hljómplötulista má sjá hverja plötu fyrir sig ásamt hljóðdæmi og texta sem henni fylgir (listinn er í vinnslu):