Maraþonhlaup
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Maraþonhlaup, eða bara Maraþon er staðlað langt langhlaup kennt við borgina Maraþon á Grikklandi. Maraþonhlaup er 42,195 km langt og er það vegalengdin sem boðberi nokkur er sagður hafa hlaupið með skilaboð um sigur í bardaganum við Maraþon frá þeirri borg til Aþenu. Sagan segir að hann hafi ekkert stansað á leiðinni og hafi látist um leið og hann skilaði af sér boðunum. Engar heimildir eru þó til um að þessi atburður hafi nokkurntíman átt sér stað. Maraþon eru oft hlaupin um borgir og taka oft mjög margir þátt í hverju hlaupi. Þá eru oft hlaupin með til dæmis hálfmaraþon, þar sem hlaupinn er 21,1 km auk þess sem stundum er fjórðungur vegalengdarinnar hlaupinn. Meðal frægustu maraþonhlaupa heims eru þau sem fram fara í New York, London og Chicago. Á Íslandi fara árlega fram fjögur maraþonhlaup. Félag maraþonhlaupara stendur fyrir tveimur hlaupum, öðru í mars (marsþon) og hinu í október (haustþon). Mývatnsmaraþon hefur verið þreytt síðan 1995 og Reykjavíkurmaraþon síðan 1989. Íslandsmet í maraþonhlaupi á Sigurður Pétur Sigmundsson, 2:19,46, sett 29. september 1985 í Berlín.
Félag maraþonhlaupara heldur utan um árangur allra Íslendinga sem hlaupið hafa maraþon í löglegri keppni.

