Viðskiptaáætlun
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjal sem segir til um hver á að gera hvað, hvernig og fyrir hvaða tíma til að hrinda viðskiptahugmynd í framkvæmd. Viðskiptaáætlun er notuð til að skipuleggja og samræma þau verk sem vinna þarf og stundum einnig til að sannfæra fjárfesta um ágæti viðskiptahugmyndar. Ef viðskiptaáætlun er ekki notuð til að samstilla alla þætti framtaks er líklegt að heildarsamræmi skorti. Viðskiptaáætlun hindrar að verkþættir dragist á langinn eða verkþáttum sé ekki sinnt. Þótt viðskiptaáætlun sé nauðsynleg til að sýna fjárfestum hvað fyrirtækið, framtakið eða fjárfestingin á að áorka er það ekki aðalhlutverk hennar. Viðskiptaáætlun er aðallega teikningin eða lýsingin á öllu því sem gera þarf til að ná settu marki. Í viðskiptaáætlun felast ítarlegar upplýsingar um t.d. verkáætlanir, aðföng, skipulag, sbr. teikningar/uppdrætti, kostnað og væntanlegar tekjur. Viðskiptaáætlun á að innihalda allar forsendur. Fjárfestar og aðrir þeir sem máli skipta varðandi verkefnið eiga að geta lesið viðskiptaáætlunina og með þeim rökstuðningi sem þar er að finna skilið hvað á að framkvæma, hvernig og hvaða niðurstöðu vonast er eftir. Þeir sem fjármagna verkið fá þar upplýsingar um endurgreiðslu og líkur á arðsemi. Viðskiptaáætlun er fyrst og fremst skipulagsskjal innan fyrirtækisins sem frumkvöðull starfar eftir, einn eða með hópi manna. Vel úthugsuð viðskiptaáætlun getur reynst ómissandi skipulagsskjal til að ná fram settu marki.

