Ómar Ragnarsson
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ómar Ragnarsson (f. 16. september 1940) er íslenskur fjölmiðlamaður og formaður stjórnmálaflokksins Íslandshreyfingarinnar til bráðabirgða. Ómar var í fyrsta sæti á framboðslista þeirra í Reykjavíkurkjördæmi suður í kosningunum 2007 en náði ekki kjöri.
Á löngum ferli sínum hefur Ómar starfað sem fréttamaður, skemmtikraftur, rithöfundur, flugmaður og lagasmiður. Ómar er giftur Helgu Jóhannsdóttur forstöðukonu, og eiga þau sjö uppkomin börn. Ómar er þekktur á Íslandi fyrir að vera mikið náttúrubarn. Hann hefur til margra ára barist gegn byggingu Kárahnjúkavirkjunnar og gaf út bókina Kárahnjúkar - með og á móti árið 2006. Að kvöldi 26. september sama ár leiddi hann ríflega 10 þúsund manns í mótmælagöngu niður Laugaveginn gegn stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar.[1]
Í kosningum Rásar 2 um mann ársins 2006 varð Ómar hlutskarpastur. Fréttastofa Stöðvar 2 valdi hann sömuleiðis mann ársins það ár.[2]
[breyta] Tilvísanir
- ↑ Fjölmennustu mótmæli síðan 1973 (27. september 2006). Skoðað 26. apríl, 2007.
- ↑ Ómar maður ársins á Stöð 2 og Rás 2 (31. desember 2006). Skoðað 26. apríl, 2007.

