Leturfræði
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Leturfræði fjallar um stafa- og leturgerðir. Orðið „týpa“ lýsir í leturfræði ákveðnum flokkum leturs. Orðið „týpógrafía“ er notað sem samheiti yfir leturfræði: leturval, leturstærð, leturhæð og leturbreidd og uppsetningu á leturflötum.
Týpógrafía er öll starfsemin eða aðgerðirnar sem þarf að framkvæma til að koma upplýsingum hins talaða orðs í myndrænt form. Týpógrafía hefur verið til jafnlengi og letur.
En útlit týpógrafíu tekur ávallt breytingum með nýrri tækni sem notuð er hverju sinni. Þegar við notum tákn til að lýsa einhverju, verður form táknsins að vera nákvæmlega skilgreint (við þurfum öll að vera sammála um merkingu táknsins), svo það sé öruggt að skrifari og lesandi skilji það sama, þ.e. lesi það sama út úr tákninu.
Þegar við skoðum skrift og letur rekumst við á orð sem öðlast hafa sess í mörgum tungumálum og eiga rætur að rekja til erlendra tungumála. Orðið týpógrafía er eitt dæmi um þetta. Orðið er sett saman úr tveimur orðum sem koma bæði úr grísku.
Á grísku merkir „typos“ form og „grafein“ sem þýðir að skrifa. Latína yfirtók orðið typos og það breyttist í typus. Orðið „týpa“ kemur inn í íslenskuna frá Evrópu. Það má þýða orðið bókstaflega sem „týpuskrift“ eða „skrifa með stöfum“. Í báðum tilfellum er verið að lýsa hlut annars vegar (stafir, týpa) og starfsemi hins vegar (að skrifa).
Þegar við segjum að eitthvað sé týpískt þá meinum við eitthvað dæmigert, eitthvað sem hefur sömu einkenni. Þannig var upprunalega orðið notað í grísku.

