Björgólfur Guðmundsson
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Björgólfur Guðmundsson (f. 2. febrúar 1941) er íslenskur viðskiptamaður og formaður bankaráðs Landsbanka Íslands. Björgólfur er giftur Þóru Hallgrímsson og eiga þau fimm börn. Sonur þeirra er Björgólfur Thor Björgólfsson, sem er einn af ríkustu mönnum landsins um þessar mundir. Þau áttu einnig dótturina Margréti (kjördóttir Björgólfs), sem lést af slysförum 1989, og hafa þau stofnað minningarsjóð í nafni hennar.
[breyta] Ævi
Björgólfur gekk í Verslunarskóla Íslands. Hann hóf nám í lögfræði við Háskóla Íslands en hætti eftir tvö ár. Hann sat í stjórn Heimdallar, félagi ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, árin 1965-68. Hann var framkvæmdastjóri Dósaverksmiðjunnar. Hann var ráðinn framkvæmdastjóri Hafskips árið 1977, íslensks flutningafyrirtækis sem varð gjaldþrota á níunda áratugnum. Óeðlileg viðskipti við Útvegsbankann voru gagnrýnd og málið varð fyrirferðamikið í umræðunni. Svo fór að Útvegsbankinn var lagður niður og Björgólfur dæmdur í eins árs skilorðisbundið fangelsi árið 1991.
Þá hélt Björgólfur út til St. Pétursborgar, Rússlandi, árið 1993 og stofnaði drykkjavöruverksmiðjuna Bravo Brewery ásamt syni sínum Björgólfi Thor og Magnúsi Þorsteinssyni. Í febrúar 2002 seldu þeir Heineken verksmiðjuna fyrir $400 milljónir.
Björgólfur sneri vellauðugur aftur til Íslands og var í forsvari svokallaðs Samson-hóps sem keypti 45,8% hlut í Landsbanka Íslands á 12,3 milljarða kr, sem var einkavæddur í skrefum á árunum 1998-2003. Hann hefur setið í stjórn bankans síðan í febrúar 2003. Árið 2005 var hann sæmdur Riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag til viðskiptalífs og menningar. Nýlega hefur hann aðstoðað Eggert Magnússon við kaup á enska úrvalsdeildarfélaginu West Ham United F.C.. Í kjölfarið var Björgólfur skipaður heiðursformaður knattspyrnufélagsins.[1]
[breyta] Tilvísanir
- ↑ Búið að ganga frá kaupum Eggerts á West Ham. Morgunblaðið (21. nóvember 2006). Skoðað 2. júlí, 2007.
[breyta] Tenglar
- Minningarsjóður Margrétar Björgólfsdóttur
- Viðtal við Björgólf í Guardian: He's the real thing
- Heineken Seals $400M Bravo Deal, St. Petersburg Times, 5. febrúar 2002.
- Ræða Björgólfs Guðmundssonar á málefnaþingi SUS (8.9.2004)

