Lúkasarmál

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þessi grein þarfnast hreingerningar svo hún hæfi betur sem grein hér á Wikipedia. Skoðaðu sýnigreinar og nafnavenjurnar til að bæta hana.

Sumarið 2007 voru Bíladagar haldnir hátíðlegir á Akureyri. Þá var búsettur í bænum hundur að nafni Lúkas af Chinese Crested kyni. Hann var ársgamall þegar þeir atburðir sem hér eru raktir áttu sér stað.

Lúkas hvarf á Bíladögum. Mörgum sögum fór af því hvað kom fyrir Lúkas á Bíladögum, en skemmst er frá því að segja að fljótlega komst sá kvittur á kreik að ungur maður hefði drepið hundinn. Var hann sakaður um að hafa lokað hundinn í íþróttatösku og sparkað í hana þar til hundurinn drapst.

Þessi saga barst eins og eldur um sinu á íslenskum netsíðum. Var þessu síðar líkt við nornafár eða galdrabrennur til forna. Var drengnum sem sakaður var um verknaðinn hótað, jafnvel lífláti, víða á netinu. Hvort tveggja kom til kasta lögreglu, meint hundsdrápið, og hótanir í garð drengsins.

Drengurinn kom fram í sjónvarpi oftar en einu sinni og bar af sér allar sakir.

Lúkasar, sem þá var talinn af, var minnst með kertafleytingu á Akureyri að viðstöddu fjölmenni.

Rannsókn á hundsdrápinu lauk skyndilega þegar hundurinn Lúkas sást lifandi í grennd við ruslahaug Akureyrarbæjar. Eiganda hans tókst fljótlega eftir það að handsama hann og færa hann heim til sín. Við þau tíðindi féll þeim sem farið höfðu ókvæðisorðum um meintan banamann Lúkasar allur ketill í eld. Þeir standa nú hugsanlega frammi fyrir lögsókn fyrir ógætileg ummæli sín.