Uppvakningur
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Uppvakningur er holdleg vera (oftast í formi mannveru, en getur tekið sér mynd dýra eða yfirnáttúrulegrar veru) sem á einn hátt eða annan hefur vaknað til lífsins eftir dauðann og gengur meðal lifenda. Samkvæmt norrænum þjóðsögum og goðsögnum eru draugar eins konar uppvakningar sem risið hafa upp úr grafhaugum látinna víkinga. Uppvakningur á meðal norrænna þjóða var andi hins látna sem látinn var vinna ýmis ill verk fyrir mann sem var vel að sér í göldrum.
Nútímamerking orðsins á þó oftast við þýðingu á enska orðinu zombie, sem er nár sem hefur verið vakinn upp (oftast með göldrum), og gengur um á meðal lifenda og er „skinlifandi“ (sbr.: skindauður). Sögur nútímans af uppvakningum, á prenti eða hvíta tjaldinu, eiga flestar upprunna sinn að rekja til sagna af afrísk-karabískum göldrum, vúdú og svartagaldurs. Í þeim er sjálfur nár hins látna vakinn til lífs og honum fengið hlutverk í holdinu á meðal lifenda.
Hið afrískættaða orð Zumbi (enska: Zombie), sem upphaflega var nafn á snákguði, en þýddi síðan „endurlífgaður nár“, hefur þannig aukið við merkingu orðsins uppvakningur. Uppvakningur í þeirri merkingu er því oft sálarlaus líkami manns sem starfar sem þræll í þjónustu vúdúprests. Slíkir uppvakningar hafa birst í sögum, hryllingsmyndum og núna síðast tölvuleikjum. Uppvakningar eru þó ekki aðeins verk vúdúpresta, eða galdra, heldur geta líka verið afleiðingar vísindarannsókna (Frankenstein), líffræðilegra stökkbreytinga og vírusa sbr.: kvikmyndir eins og Resident Evil og 28 days later.

