Brandur Jónsson
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Brandur Jónsson var biskup á Hólum í eitt ár, frá 1263 til dauðadags, 1264.
Óvíst er hvaða ár Brandur var fæddur. Hann var af ætt Svínfellinga, sem var ein helsta höfðingjaætt landsins, og fór með héraðsvöld á austanverðu landinu. Foreldrar Brands voru Jón Sigmundsson goðorðsmaður á Svínafelli í Öræfum og seinni kona hans Halldóra Arnórsdóttir. Hún var af ætt Ásbirninga, dóttir Arnórs Kolbeinssonar.
Brandur var ábóti í Þykkvabæjarklaustri í Álftaveri 1247-1263, en þar var Ágústínusarklaustur. Kom hann talsvert að deilum höfðingja á Sturlungaöld, og þá oft sem sáttasemjari.
Eftir að Íslendingar höfðu gengið undir vald Noregskonungs, 1262, var aftur farið að skipa íslenska menn í biskupsembættin. Varð Brandur Jónsson þá biskup á Hólum, vígður 1263, en hans naut ekki lengi við, því að hann andaðist 26. maí 1264.
Brandur Jónsson var vel lærður maður og kenndi ýmsum. Hann var einnig þekktur rithöfundur. Hann þýddi á íslensku Alexanders sögu, söguljóð eftir Philippus Gualterus um Alexander mikla. Þetta er lausamálsþýðing og þykir málfarið á þýðingunni með miklum snilldarbrag. Halldór Laxness hreifst svo af verkinu að hann beitti sér fyrir því að Alexanders saga var gefin út árið 1945 í alþýðlegri útgáfu.
Brandur þýddi einnig Gyðinga sögu á íslensku, og e.t.v. fleiri rit.
Hermann Pálsson hefur sett fram þá tilgátu að Brandur hafi samið Hrafnkels sögu Freysgoða.
Brandur Jónsson var ókvæntur, en hann átti þó son, Þorstein Brandsson á Kálfafelli.
[breyta] Heimildir
- Páll Eggert Ólason: Íslenskar æviskrár I.
- Sturlunga saga.
| Fyrirrennari: Heinrekur Kársson |
|
Eftirmaður: Jörundur Þorsteinsson |
|||

