Frjálshyggja á Íslandi
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
| Íslensk stjórnmál Þessi grein er hluti af greinaflokknum: Íslensk stjórnmál |
Fyrsta stefnuskrá frjálshyggjunnar á Íslandi getur að líta í ritgerð Jóns Sigurðssonar forseta um verslun á Íslandi í Nýjum félagsritum 1843. Jón hafði kynnt sér röksemdir Lockes fyrir takmörkun ríkisvaldsins og Smiths fyrir frjálsum viðskiptum og beitti óspart þeim í sjálfstæðisbaráttunni. Fyrsta íslenska hagfræðiritið, Auðfræði Arnljóts Ólafssonar 1880, var samið í anda frjálshyggju, enda stuðst þar við verk hins frjálslynda franska rithöfundar Fréderics Bastiats. Aldamótakynslóðin undir forystu Hannesar Hafsteins aðhylltist frjálshyggju, þótt hún hefði ekki mörg orð um hana. Kenningar enska heimspekingsins Johns Stuarts Mill höfðu þá nokkur áhrif á Íslandi, en tvö rit hans, Frelsið og Kúgun kvenna, voru þýdd á íslensku fyrir og um 1900. Það var þó ekki fyrr en sósíalismi þeirra Jónasar Jónssonar frá Hriflu og Ólafs Friðrikssonar kom til sögu, að Jón Þorláksson sá sig knúinn til að gera grein fyrir helstu rökum frjálshyggjumanna í ritgerðinni „Milli fátæktar og bjargálna“ 1929 (og studdist þar við verk sænska hagfræðingsins Gustavs Cassels). Hér á landi lét frjálshyggja undan síga í heimskreppunni eins og annars staðar, og tekinn var upp haftabúskapur. Hagfræðingarnir Ólafur Björnsson, dr. Benjamín Eiríksson, Jóhannes Nordal og Jónas Haralz héldu þó fram frjálsum viðskiptum og áttu drjúgan þátt í að losa um ýmis höft, sérstaklega 1950 og 1960. Tveir helstu hugsuðir frjálshyggjunnar, þeir Hayek og Friedman, lögðu leið sína til Íslands á 9. áratug 20. aldar og náðu eyrum Íslendinga. En þegar Davíð Oddsson myndaði fyrstu ríkisstjórn sína vorið 1991, var stefnan loks tekin að fullu í átt til frjálshyggju svipað og þau Thatcher og Reagan höfðu gert. Næsta hálfan annan áratug gerbreyttist íslenskt atvinnulíf, og er það nú eitt hið frjálsasta í heimi, eins og sjá má á hinni svokölluðu vísitölu atvinnufrelsis. 1975 var íslenskt atvinnulíf hið 53. frjálsasta í heimi, en 2004 var það hið níunda. Það var því ekki að ófyrirsynju, að Mont Pèlerin samtökin héldu fund á Íslandi í ágúst 2005 til að ræða frelsi og eignarrétt á nýrri öld. Árin 1979-1989 starfaði Félag frjálshyggjumanna að því að kynna frjálshyggju á Íslandi, og hefur Frjálshyggjufélagið, sem stofnað var 2002, tekið að sér svipað hlutverk, þótt félagar þess séu róttækari.

